YouVersion Logo
Search Icon

Síraksbók 1

1
Spekin vegsömuð
1Öll speki er frá Drottni,
hjá honum er hún að eilífu.
2Hver fær talið sandkorn á sjávarströnd,
dropa regns eða daga eilífðar?
3Hver fær kannað hæð himins, víðáttu jarðar,
undirdjúpin eða spekina?
4Fyrri öllu var spekin sköpuð,
frá eilífð voru skilningur og hyggindi.
5Orð Guðs í upphæðum er lind spekinnar,
eilíf boð hans vegir hennar.#1.5 Vantar í sum grísk handrit.
6Hverjum opinberaðist upphaf spekinnar?
Hver komst fyrir hulin rök hennar?
7Hverjum opinberaðist þekking á spekinni
og hver hlaut skilning á allri reynslu hennar?#1.7 Vantar í sum grísk handrit.
8Drottinn einn er spakur, ógurlegur mjög,
situr í hásæti sínu.
9Hann er sá sem spekina skóp,
leit á hana og virti vel
og veitti henni yfir öll sín verk.
10Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans,
hann veitir þeim sem elska hann ríkulega af henni.
11Að óttast Drottin er heiður og vegsemd,
gleði og fagnaðarsveigur.
12Að óttast Drottin fyllir hjartað fögnuði,
veitir ánægju, gleði og langlífi.
13Sá sem óttast Drottin mun hljóta sælan endi,
njóta blessunar á banadægri.
Upphaf spekinnar
14Upphaf spekinnar er að óttast Drottin.
Hún er ásköpuð hinum trúföstu þegar í móðurlífi.
15Hjá mönnum hefur hún gert sér bústað,
grundvallaðan að eilífu,
niðjar þeirra munu treysta á hana.#1.15 Annar lesháttur: Og niðjum þeirra verður hún falin.
16Nægtir speki er að óttast Drottin,
hún seður menn með aldinum sínum.
17Hús þeirra allt fyllir hún lostæti,
forðabúrin afurðum sínum.
18Kóróna spekinnar er að óttast Drottin,
hún ber blóm friðar og fullrar heilsu.
19Drottinn horfði á spekina og mat hana mikils.
Hún lætur þekkingu og innsæi falla sem regn,
eflir vegsemd þeirra sem höndla hana.
20Rót spekinnar er að óttast Drottin,
greinar hennar eru langlífi.
21Guðsótti hrekur syndir á braut
og þar sem hann er að finna víkur reiðin frá.#1.21 Vantar í sum grísk handrit.
Hafið taumhald á lund og tungu
22Óréttmæt reiði á engar málsbætur,
hömlulaus heift leiðir manninn til falls.
23Þolinmóður þreyr til hentugs tíma
og honum hlotnast gleði um síðir.
24Orðvar er hann uns tími er til,
þá hljóta hyggindi hans lof af vörum margra.
Spekin og lotning fyrir Guði
25Spekin býr yfir fjársjóðum spakmæla
en guðhræðsla er syndurum viðurstyggð.
26Ef þú þráir speki skaltu halda boðorðin,
þá mun Drottinn veita þér gnótt hennar.
27Speki og menntun er að óttast Drottin,
trúfesti og auðmýkt gleðja hann.
28Sporna ei gegn því að óttast Drottin,
gakk ei fyrir hann með svik í hjarta.
29Hræsna þú eigi fyrir mönnum
og haf gát á vörum þínum.
30Hreyk þér eigi upp svo að þú fallir
og leiðir vanvirðu yfir þig.
Drottinn mun þá leiða það í ljós sem þú hylur hið innra
og auðmýkja þig í augsýn safnaðarins.
Þú gekkst eigi fram í ótta Drottins,
hjarta þitt var fullt svika.

Currently Selected:

Síraksbók 1: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy