YouVersion Logo
Search Icon

Opinberunarbókin 14

14
Á Síonarfjalli
1Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonarfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á enni sér. 2Og ég heyrði rödd af himni. Hún hljómaði sem niður margra vatna og sem mikill þrumugnýr og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur harpara sem hörpur sínar slá. 3Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir sem leystar hafa verið frá jörðunni. 4Þetta eru þeir sem ekki hafa saurgast með konum. Þeir eru skírlífir. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir úr hópi manna sem frumgróði handa Guði og lambinu. 5Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.
Stundin er komin
6Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap til að boða þeim sem á jörðunni búa og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð 7og sagði hárri röddu: „Óttist Guð og gefið honum dýrðina. Stundin er komin er hann kveður upp dóm sinn. Tilbiðjið þann sem hefur gert himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“
8Annar engill kom á eftir honum og sagði: „Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla sem byrlað hefur öllum þjóðum af lostavíni saurlífis síns.“
9Á eftir þeim kom þriðji engillinn og sagði hárri röddu: „Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og lætur setja merki þess á enni sér eða hönd, 10þá skal hann fá að drekka óblandað vín af reiðiskálum Guðs og hann mun verða kvalinn í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins. 11Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda og þeir sem tilbiðja dýrið og líkneski þess og hver sem ber merki þess mun enga ró hafa nótt og dag.“
12Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er hlýða Guði og trúa á Jesú.
13Og ég heyrði rödd af himni sem sagði: „Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu því að verk þeirra fylgja þeim.“
Uppskerutími
14Og ég sá, og sjá: Hvítt ský og á skýinu einhvern sitja líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfði og beitta sigð í hendi. 15Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: „Beittu sigð þinni og skerðu upp því að kominn er uppskerutíminn, kornið er þroskað.“ 16Og sá sem á skýinu sat brá sigð sinni á jörðina og uppskeran var færð í hlöðu.
17Annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka beitta sigð.
18Og enn annar engill gekk út frá altarinu og hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess sem hafði beittu sigðina: „Tak beittu sigðina þína og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar því að vínberin á honum eru orðin þroskuð.“ 19Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínviði hennar og kastaði honum í vínþröngina miklu sem táknar reiði Guðs. 20Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af henni svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm#14.20 Þýðing á grísku lengdarmálseiningunni stadion sem jafngilti 192 m. þar frá.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy