YouVersion Logo
Search Icon

Rómverjabréfið 13

13
Skyldur við yfirvöld
1Hver maður hlýði þeim yfirvöldum sem eru yfir hann sett. Því engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki. Þau sem eru til hefur Guð skipað. 2Sá sem veitir yfirvöldum mótstöðu veitir skipan Guðs mótstöðu og hlýtur að fá sinn dóm. 3Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdhafa heldur sá sem vinnur vond verk. Viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöld skaltu gera það sem gott er og þá færðu þeirra lof, 4því að þau þjóna Guði þér til góðs. En ef þú gerir það sem illt er þá máttu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverð sitt ófyrirsynju. Þau þjóna Guði og er skylt að refsa þeim sem illt fremja. 5Því er nauðsyn að hlýðnast, ekki aðeins af ótta við hegningu heldur og vegna samvisku sinnar.
6Enda er það þess vegna sem þið gjaldið skatta, að valdhafar eru þjónar Guðs í því sem þeir eiga að annast. 7Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt sem skattur ber, þeim virðingu sem virðing ber, þeim heiður sem heiður ber.
Kærleikurinn uppfylling lögmálsins
8Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. 9Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 10Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.
11Gerið þetta því heldur sem þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. 12Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. 13Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy