YouVersion Logo
Search Icon

Júdasarbréfið 1

1
Kveðja
1Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar þeim sem Guð faðir elskar og hefur kallað og Jesús Kristur varðveitir.
Að misnota náð Guðs
2Miskunn, friður og kærleiki margfaldist með ykkur.
3Þið elskuðu, mér var það ríkt í huga að rita ykkur um sameiginlegt hjálpræði okkar. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja ykkur til að berjast fyrir þeirri trú sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld. 4Nokkrir menn hafa laumast inn í söfnuðinn. Það eru óguðlegir menn sem misnota náð Guðs okkar til taumleysis og afneita okkar eina lávarði og Drottni, Jesú Kristi. Fyrir löngu var ritað um þann dóm sem biði þeirra. 5Ég vil minna ykkur á, þótt þið vitið það allt, að Drottinn#1.5 Annar lesháttur: Jesús, ritað á sama hátt á grísku og orðið Jósúa. frelsaði lýðinn úr Egyptalandi en tortímdi samt síðar þeim sem ekki trúðu. 6Minnist englanna sem ekki gættu tignar sinnar heldur yfirgáfu eigin bústað. Guð hefur geymt þá í myrkri í ævarandi fjötrum til dómsins á deginum mikla. 7Gleymið ekki heldur Sódómu og Gómorru og borgunum umhverfis þær sem drýgt höfðu saurlifnað, á líkan hátt og englarnir, og stunduðu óleyfilegt kynlíf. Guð setti þær til viðvörunar og refsaði þeim með eilífum eldi.
8Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla himnaverum. 9Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Mikael að saka djöfulinn um guðlast, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: „Drottinn refsi þér!“ 10En þessir menn lastmæla öllu því sem þeir þekkja ekki en það sem þeir skilja af eðlisávísun sinni eins og skynlausar skepnur verður þeim til falls. 11Vei þeim, því að þessir menn hafa gengið á vegi Kains og sökkt sér í villu Bíleams af gróðafíkn, gert uppreisn gegn Guði eins og Kóra og tortímst. 12Þeir eru smánarblettur á kærleiksmáltíðum ykkar er þeir sitja að veislum með ykkur og háma í sig blygðunarlaust og hugsa aðeins um eigin hag. Þeir eru eins og vatnslaus ský sem rekast fyrir vindum, eins og tré sem bera ekki ávöxt að hausti, steindauð og rifin upp með rótum. 13Þeir eru eins og ofsalegar hafsbylgjur sem freyða eigin smánarverkum og stjörnur sem farið hafa út af braut sinni og eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar. 14Um þessa menn spáði Enok líka, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra 15til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“
16Þessir menn eru síkvartandi og kenna öðrum um örlög sín og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir smjaðra fyrir öðrum, sér til ávinnings.
Varnaðarorð
17En þið elskuðu, minnist þeirra orða sem postular Drottins vors Jesú Krists hafa áður talað. 18Þeir sögðu við ykkur: „Á síðasta tíma munu koma spottarar sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum.“ 19Það eru þeir sem valda sundrungu, þeir eru bundnir við þennan heim og hafa eigi andann. 20En þið elskuðu, byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar. Biðjið í heilögum anda. 21Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf og bíðið eftir að Drottinn vor Jesús Kristur sýni ykkur náð og veiti ykkur eilíft líf.
22Sumir eru efablandnir, sýnið þeim mildi, 23suma skuluð þið frelsa með því að hrífa þá út úr eldinum, sýnið sumum óttablandna mildi og forðist jafnvel klæði þeirra sem flekkuð eru af synd.
Bæn
24En Guði, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína lýtalaus í fögnuði, 25einum Guði sem frelsar oss fyrir Jesú Krist, Drottin vorn, sé dýrð, hátign, máttur og vald frá alda öðli, nú og um allar aldir. Amen.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy