YouVersion Logo
Search Icon

Jóhannesarguðspjall 18

18
Jesús tekinn höndum
1Þegar Jesús hafði þetta mælt fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans. 2Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman. 3Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum. 4Jesús vissi allt sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: „Að hverjum leitið þið?“
5Þeir svöruðu honum: „Að Jesú frá Nasaret.“
Hann segir við þá: „Ég er hann.“
En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim. 6Þegar Jesús sagði við þá: „Ég er hann,“ hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar. 7Þá spurði hann þá aftur: „Að hverjum leitið þið?“
Þeir svöruðu: „Að Jesú frá Nasaret.“
8Jesús mælti: „Ég sagði ykkur að ég væri hann. Ef þið leitið mín þá lofið þessum að fara.“ 9Þannig rættist orð hans er hann hafði mælt: „Engum glataði ég af þeim sem þú gafst mér.“
10Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus. 11Þá sagði Jesús við Pétur: „Slíðra þú sverð þitt. Á ég ekki að drekka kaleikinn sem faðirinn hefur fengið mér?“
Jesús yfirheyrður
12Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga#18.12 Þ.e. þjónar æðsta ráðsins. tóku nú Jesú höndum, bundu hann 13og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar sem var æðsti prestur það ár. 14En Kaífas var sá sem hafði gefið Gyðingum það ráð að betra væri að einn maður dæi fyrir lýðinn.
15Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins. 16En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem gætti dyra, og fór inn með Pétur. 17Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: „Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?“
Hann sagði: „Ekki er ég það.“
18Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld því kalt var og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.
19Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.
20Jesús svaraði honum: „Ég hef talað í áheyrn allra. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum þar sem allir Gyðingar safnast saman en í leynum hef ég ekkert talað. 21Hví spyr þú mig? Spyrðu þá sem heyrt hafa hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.“
22Þegar Jesús sagði þetta rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: „Svarar þú æðsta prestinum svona?“
23Jesús svaraði honum: „Hafi ég illa mælt þá sanna þú að svo hafi verið en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“ 24Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.
25En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: „Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?“
Hann neitaði því og sagði: „Ekki er ég það.“
26Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess sem Pétur sneið af eyrað: „Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?“
27Aftur neitaði Pétur og um leið gól hani.
Fyrir Pílatusi
28Menn æðsta prestsins fóru nú með Jesú frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar. 29Pílatus kom út til þeirra og sagði: „Hvaða ákæru berið þið fram gegn þessum manni?“
30Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki hefðum við ekki selt hann þér í hendur.“
31Pílatus segir við þá: „Takið þið hann og dæmið hann eftir ykkar lögum.“
Þeir#18.31 Orðrétt: Gyðingar. svöruðu: „Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ 32Þannig rættist orð Jesú þegar hann gaf til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.
33Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
34Jesús svaraði: „Eru þetta þín orð eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“
35Pílatus svaraði: „Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gert?“
36Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“
37Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“
Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur.#18.37 Eða: „Þú segir að ég sé konungur.“ Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“
38Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“
Jesús dæmdur til dauða
Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum. 39Þið eruð vanir því að ég gefi ykkur einn mann lausan á páskunum. Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“
40Þeir hrópuðu á móti: „Ekki hann heldur Barabbas.“ En Barabbas var ræningi.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy