YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 27

27
Jakob blekkir föður sinn
1Ísak var nú orðinn gamall og augu hans svo döpruð að hann gat ekki séð. Kallaði hann þá á Esaú, eldri son sinn, og sagði við hann: „Sonur minn.“
Og hann svaraði: „Hér er ég.“
2Og Ísak sagði: „Ég er orðinn gamall og veit ekki hversu langt ég á eftir ólifað. 3Taktu nú veiðigögn þín, örvamæli og boga, og farðu á heiðar og veiddu handa mér villibráð. 4Tilreiddu handa mér eftirlætisrétt minn og færðu mér að eta svo að ég geti blessað þig áður en ég dey.“
5En Rebekka heyrði á tal þeirra Ísaks og Esaú, sonar hans. Þegar Esaú var farinn á heiðar til að veiða villibráð og koma með hana heim 6sagði Rebekka við Jakob, son sinn:
„Ég heyrði föður þinn segja við Esaú, bróður þinn: 7Færðu mér villibráð og tilreiddu mér eftirlætisrétt minn svo að ég geti etið og blessað þig fyrir augliti Drottins áður en ég dey. 8Hlýddu mér nú, sonur minn, og gerðu sem ég segi þér. 9Farðu til hjarðarinnar og færðu mér tvo væna kiðlinga og ég mun tilreiða föður þínum ljúffengan rétt sem honum geðjast að. 10Færðu hann föður þínum til þess að hann blessi þig áður en hann deyr.“
11Jakob sagði þá við Rebekku, móður sína: „Gáðu að, Esaú, bróðir minn, er loðinn en ég hef mjúka húð. 12Vera má að faðir minn þreifi á mér og þá mun honum þykja sem ég hafi ætlað að blekkja sig og hef ég þá leitt yfir mig bölvun og ekki blessun.“
13Móðir hans svaraði honum: „Bölvun þín kæmi yfir mig, sonur minn. Hlýddu mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðlingana.“
14Fór hann þá og sótti kiðlingana og færði móður sinni og hún tilreiddi ljúffengan rétt sem föður hans geðjaðist að. 15Og Rebekka tók viðhafnarklæði Esaú, eldri sonar síns, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í þau. 16Kiðskinnin lét hún um hendur honum og hálsinn þar sem hann var hárlaus, 17og ljúffenga réttinn, sem hún hafði matreitt, og brauð fékk hún í hendur Jakobi, syni sínum.
18Jakob gekk inn til föður síns og sagði: „Faðir minn.“
Og hann sagði: „Hér er ég en hver ert þú, sonur minn?“
19Og Jakob sagði við föður sinn: „Ég er Esaú, frumburður þinn. Ég hef gert eins og þú sagðir mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni svo að þú getir blessað mig.“
20Þá sagði Ísak við son sinn: „Hvernig máttir þú finna nokkuð svo skjótlega, sonur minn?“
Og hann svaraði: „Því að Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum.“
21Ísak sagði þá við Jakob: „Komdu nær, sonur minn, að ég megi þreifa á þér og vita hvort þú ert Esaú, sonur minn, eða ekki.“
22Jakob gekk þá til Ísaks, föður síns, og hann þreifaði á honum og mælti: „Röddin er rödd Jakobs en hendurnar eru hendur Esaú.“
23En hann bar ekki kennsl á hann því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú, bróður hans. Og hann blessaði hann.
24Og hann sagði: „Ert þú örugglega Esaú, sonur minn?“
Hann svaraði: „Ég er hann.“
25Þá sagði Ísak: „Færðu mér réttinn, ég ætla að snæða af villibráð sonar míns svo að ég geti blessað þig.“
Og hann færði honum og hann mataðist og hann bar fram vín og hann drakk.
26Þá sagði Ísak, faðir hans: „Komdu nær, sonur minn, og kysstu mig.“
27Hann kom nær og minntist við hann en þegar Ísak fann ilminn af klæðum hans blessaði hann hann og sagði:
Sjá, ilmurinn af syni mínum
er eins og ilmur af akri
sem Drottinn hefur blessað.
28Guð gefi þér
af dögg himins og feiti jarðar
og gnóttir korns og víns.
29Þjóðir lúti þér
og lýðir þjóni þér.
Drottna þú yfir bræðrum þínum
og synir móður þinnar lúti þér.
Bölvaður sé sá sem þér bölvar
og blessaður sá sem blessar þig.
30Nú bar svo við er Ísak hafði lokið við að blessa Jakob og hann var rétt genginn út frá föður sínum að Esaú, bróðir hans, kom heim úr veiðiför sinni. 31Hann matbjó einnig ljúffengan rétt og fór með hann til föður síns og sagði við hann: „Rístu upp, faðir minn, og et villibráð sonar þíns til þess að þú getir blessað mig.“
32En faðir hans spurði: „Hver ert þú?“ Og hann svaraði: „Ég er sonur þinn, Esaú, frumburður þinn.“
33Þá tók Ísak að skjálfa af geðshræringu og spurði: „Hver var það þá sem kom úr veiðiför og færði mér villibráð? Ég neytti hennar skömmu áður en þú komst og blessaði hann og hann mun verða blessaður.“
34Þegar Esaú heyrði orð föður síns hljóðaði hann upp yfir sig beisklega og sagði: „Blessaðu mig einnig, faðir minn.“
35En hann sagði: „Bróðir þinn hefur komið með svikum og rænt frumburðarrétti þínum.“
36Þá sagði Esaú: „Réttnefndur er hann Jakob. Tvisvar hefur hann prettað mig. Hann tók frumburðarrétt minn og nú hefur hann tekið blessun mína.“ Þá spurði hann: „Hefur þú enga blessun geymt handa mér?“
37Ísak svaraði og sagði við Esaú: „Ég hef sett hann höfðingja yfir þig og gefið honum alla bræður sína að þjónum og séð honum fyrir korni og vínberjalegi. Hvað get ég þá gert fyrir þig, sonur minn?“
38Esaú sagði við föður sinn: „Áttu þá ekki nema þessa einu blessun, faðir minn? Blessaðu mig líka, faðir minn.“
Og Esaú hóf upp raust sína og grét. 39Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann:
Bústaðir þínir skulu verða fjarri frjósemd jarðar
og dögg himinsins að ofan
40en samt skaltu fá lífsbjörg þína af sverði þínu.
Bróður þínum muntu þjóna
en þú munt rífa þig lausan
og slíta ok hans af hálsi þér.
Flótti Jakobs til Harran
41Esaú fjandskapaðist við Jakob vegna blessunarinnar sem faðir hans hafði veitt honum og hugsaði með sér: Þeir dagar munu koma að menn syrgja föður minn látinn og mun ég þá drepa Jakob, bróður minn.
42Þessi orð Esaú, eldri sonar Rebekku, voru sögð móður hans og sendi hún boð og lét kalla Jakob, yngri son sinn, fyrir sig og sagði við hann: „Esaú, bróðir þinn, hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig. 43Farðu nú að ráðum mínum, sonur minn. Taktu þig upp og flýðu til Labans, bróður míns, í Harran. 44Dveldu hjá honum um hríð uns heift bróður þíns sefast. 45Þegar bróður þínum er runnin reiðin og hann hefur gleymt því sem þú gerðir á hluta hans, þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig hingað. Hví ætti ég að missa ykkur báða á einum degi?“
46Við Ísak sagði Rebekka: „Ég hef andstyggð á að lifa vegna dætra Hetítanna. Ef Jakob tæki sér konu af dætrum Hetíta, eins og þessum hérlendu konum − til hvers skyldi ég þá lifa?“

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy