YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 19

19
Eyðing Sódómu og Gómorru
1Englarnir tveir komu til Sódómu um kvöldið og sat þá Lot í borgarhliðinu. Og er hann sá þá stóð hann upp til þess að heilsa þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar 2og sagði: „Sýnið það lítillæti, herrar mínir, að koma inn í hús þjóns ykkar og þiggja næturgistingu og þvo fætur ykkar. Þá getið þið risið árla á morgun og haldið ferð ykkar áfram.“
En þeir svöruðu: „Nei, við ætlum að sofa á torginu.“ 3En Lot lagði svo hart að þeim að þeir létu til leiðast að ganga inn í hús hans. Bjó hann þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð og þeir neyttu.
4Þeir höfðu ekki enn gengið til hvíldar þegar borgarmenn, menn Sódómu, slógu hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn til síðasta manns, 5og kölluðu til Lots:
„Hvar eru mennirnir sem komu til þín í kvöld? Leiddu þá út til okkar að við megum kenna þeirra.“
6Lot gekk út um dyrnar til þeirra, lokaði á eftir sér 7og sagði: „Bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. 8Sjáið til, ég á tvær dætur sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til ykkar og þið getið gert við þær sem ykkur lystir. Aðeins að þið gerið ekkert mönnum þessum því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns.“
9Þeir æptu: „Burt með þig!“ og sögðu: „Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og nú ætlar hann að setjast í dómarasæti yfir okkur. Við munum fara verr með þig en þá.“
Og þeir gerðu aðsúg að Lot og voru að því komnir að brjóta upp hurðina. 10Þá seildust mennirnir út og kipptu Lot inn fyrir og læstu dyrunum. 11En þá sem úti stóðu slógu þeir blindu, bæði stóra og smáa, og gáfust þeir upp við að finna dyrnar.
12Mennirnir spurðu Lot: „Hverja aðra átt þú þér nákomna hér? Tengdasyni, syni, dætur eða aðra sem þú átt að í borginni skaltu hafa á burt héðan. 13Við munum tortíma þessum stað vegna þess að neyðaróp fólks, sem borist hafa til Drottins, eru svo mikil að hann sendi okkur til þess að tortíma borginni.“
14Þá fór Lot út og talaði við tengdasyni sína sem ætluðu að eiga dætur hans og mælti:
„Takið ykkur upp og farið úr þessum stað. Drottinn hefur ofurselt borgina tortímingu.“
En tengdasynirnir héldu að hann væri að gera að gamni sínu.
15Þegar dagaði ráku englarnir á eftir Lot og sögðu: „Taktu þig upp og hafðu konu þína og dætur þínar tvær, sem hjá þér eru, með þér, að þær tortímist ekki vegna syndar borgarinnar.“
16En Lot fór hægt að öllu svo að mennirnir tóku í hönd honum og í hönd konu hans og dætranna beggja, fyrir miskunn Drottins við þau, og leiddu þau í öruggt skjól utan borgar.
17Þegar þeir höfðu leitt þau út sögðu þeir: „Forðið ykkur. Líf ykkar liggur við. Lítið ekki um öxl, nemið hvergi staðar á sléttunni, flýið til fjalla svo að þið tortímist ekki.“
18En Lot sagði við þá: „Nei, herra minn. 19Þjónn þinn hefur fundið náð fyrir augum þínum og þú hefur sýnt mér mikla miskunnsemi að láta mig halda lífi en ég get ekki flúið til fjalla. Þar mun ógæfa koma yfir mig og ég mun deyja. 20Sjáið, þarna er lítið þorp rétt hjá okkur að flýja til. Það er svo lítið. Flýjum þangað. Er það ekki lítið? Þar get ég haldið lífi.“
21Engillinn svaraði: „Þessa bæn mun ég einnig veita þér. Ég mun ekki eyða þorpinu sem þú talaðir um. 22Flýttu þér. Forðaðu þér. Ég get ekkert aðhafst fyrr en þú ert kominn þangað.“
Vegna þessa nefna menn borgina Sóar. 23Sólin var risin þegar Lot kom til Sóar. 24Þá lét Drottinn rigna yfir Sódómu og Gómorru eldi og brennisteini frá Drottni af himni. 25Eyddi hann borgirnar og allt sléttlendið, ásamt þeim sem bjuggu í borgunum, og gróður jarðar. 26En kona Lots leit um öxl og varð að saltstólpa.
27Snemma morguns varð Abraham gengið þangað sem hann hafði staðið frammi fyrir Drottni 28og hann horfði í átt til Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið. Sá hann þá hvar reykur steig upp af jörðinni, líkt og reykur úr bræðsluofni.
29Guð minntist Abrahams er hann eyddi borgirnar á sléttlendinu og hann leiddi Lot úr eyðingunni þegar hann eyddi borgirnar sem Lot hafði búið í.
Dætur Lots
30Lot fór frá Sóar upp í fjöllin og settist þar að ásamt dætrum sínum tveimur því að hann óttaðist að vera í Sóar. Hann settist að í helli einum ásamt báðum dætrum sínum.
31Þá sagði sú eldri við þá yngri: „Faðir okkar er gamall orðinn og enginn karlmaður er eftir á jörðinni sem getur haft samfarir við okkur eins og siður er í öllum heimi. 32Komdu nú, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjumst síðan hjá honum. Þá munum við kveikja kyn af föður okkar.“
33Um kvöldið gáfu þær föður sínum vín að drekka og hin eldri lagðist hjá honum. En hann varð hvorki var við er hún lagðist né að hún stóð upp.
34Um morguninn sagði sú eldri við þá yngri: „Ég svaf hjá föður mínum í nótt. Gefum honum aftur vín að drekka í kvöld og farðu og leggstu með honum, og munum við þá geta barn með föður okkar.“
35Einnig þá nótt gáfu þær föður sínum vín að drekka og sú yngri tók sig til og lagðist hjá honum og hann varð hvorki var við er hún lagðist né að hún stóð upp.
36Þannig urðu báðar dætur Lots þungaðar af völdum föður síns. 37Sú eldri ól son og nefndi hann Móab. Hann varð faðir Móabíta sem enn kallast svo. 38Sú yngri fæddi einnig son og nefndi hann Ben-Ammí.
Hann er ættfaðir Ammóníta sem enn kallast svo.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

YouVersion uses cookies to personalize your experience. By using our website, you accept our use of cookies as described in our Privacy Policy